Hvað ber að hafa í huga við kaup á tækjum

Svokölluð snjalltæki - spjaldtölvur og símar - fara nú sigurför um allan heim. Ýmislegt hefur verið gert til að aðlaga þau þörfum blindra og sjónskertra auk annarra hópa fatlaðs fólks.
Apple-fyrirtækið reið á vaðið með iPhone og iPad og er nú mikill hluti hugbúnaðarins, sem fylgir tækjunum, aðgengilegur með svokölluðu Voiceover, en það er tölvutal á ýmsum tungumálum. Íslenska er þar ekki á meðal.
Android-símar eins og Samsung, Nexus o.fl. ásamt spjaldtölvum, nota svokallað Talkback til þess að gera tækin aðgengileg sjónskertu og blindu fólki. Þá er hægt að stækka letur bæði á Apple- og Android-tækjum. Ýmsir talgervlar eru í boði fyrir íslensku, Dóra, sem er mannsrödd og Espeak, sem er rafrænn talgervill. Af Android-tækjum eru Samsung-símar og spjaldtölvur einna vinsælust á meðal blindra hér á landi, enda hefur Samsung ákveðið að fylgja ákveðinni aðgengisstefnu. Hún felur í sér að öll tæki, sem fyrirtækið framleiðir, eiga að vera aðgengileg öllum hópum fatlaðra.

Hvað á að hafa í huga?
Áður en snjalltæki annað en Apple er keypt, sem er ætlað blindum eða sjónskertum einstaklingi, ber að ganga úr skugga um að það nýtist með Talkback og talgervli sem talar íslensku. Kaupið aldrei tæki handa blindum eða sjónskertum einstaklingi án þess að ganga úr skugga um þetta áður. Ef vafi leikur á aðgengi leitið þá ráða hjá ráðgjafa, t.d. hjá Þekkingar- og þjónustumiðstöð blindra, sjónskertra og fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
Munið að viðmótið á Androidtækjum er hægt að stilla á íslensku, en íslenska er ekki í boði á Apple-tækjum.
Þó er ekki algilt að allur hugbúnaður Android-tækja hafi verið þýddur, enda eru framleiðendur misjafnir og fjölmargir.
Nokkur fjöldi forrita er nú fyrir hendi á íslensku og verður sérstaklega fjallað um þau á þessu bloggi.

Arnþór Helgason


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband