Færsluflokkur: Almennt um snjalltæki og annan búnað

Nýtt blindraleturstæki kynnt - aðgengi að Kindle

Föstudaginn 17. júlí var haldinn kynningarfundur í fundarherbergi Blindrafélagsins. David Bradburn, sem vinnur fyrir umboðsmenn Baum-fyrirtækisins í Bandaríkjunum, sýndi þar blindraleturstæki af tegundinni Varioultra. Um er að ræða samskipta- og minnistæki með 20 eða 40 stafa blindraleturslínu.
Tækið er fremur létt og ótrúlega lítið, einkum minna tækið. Lyklaborð þess lofar góðu, en það er 8 punkta, en hins vegar er staðsetning stjórnhnappa ekki að öllu leyti ákjósanleg. Í tækinu eru ritlar sem skila skjölum á margs konar sniði svo sem doc, docx, rtf og brf, sem er í raun textasnið einkum ætlað fyrir hreint blindraletur. Geymsluminni þess er 32 gb sem dugar fyrir heilt bókasafn blindraletursbóka. Þá eru í tækinu dagbók, töflureiknir, reiknivél o.fl.
Fyrirtækin Baum, F.H. Papenmeier og Freedom Scientific eru á meðal helstu framleiðenda blindraleturstækja um þessar mundir. Áherslur þeirra eru um margt líkar en hvert fyrirtæki hefur sína sérstöðu. Öll framleiða þau tæki sem hægt er að tengja svokölluðum snjalltækjum eins og farsímum. Varioultra og Braillex Live eru dæmi um slík tæki. Þá hefur Braillex Trio frá Papenmeier einnig tengilmöguleika við Android- og Apple-snjallsíma, en það er mun stærra en áður nefnd tæki og hugbúnaðurinn ekki algerlega sambærilegur.
Í framhaldi fundarins var ráðist í að kanna aðgengi að ýmsum forritum í android-umhverfinu. Notað var Braillex Trio frá FHP, en ætla má að niðurstöðurnar yrðu hliðstæðar með tækjum frá öðrum framleiðendum. Niðurstöðurnar urðu eftirfarandi:

1. Eftir að kveikt hafði verið á Brailleback forritinu sem er neðan við Talkback í aðgengisvalmyndinni og stýrir bluetooth-samskiptum við snjallsíma eða spjaldtölvur gekk vel að para saman Braillex Trio og Samsung SIII snjallsíma. Þessi aðgerð hafði verið framkvæmd áður og tækið einnig tengt iPhone-síma.

2. Mjög auðvelt er að nota hnappana fyrir ofan blindraleturslyklaborðið til að ræsa forrit sem birtast á skjá snjallsímans og upplýsingar birtast jafnóðum um forritin þegar færsluhnappur Braillex-tækisins er notaður.

3. Nokkrum erfiðleikum var bundið að lesa tölvupóst og virtist vera um svipuð vandamál að ræða þegar Talkback er eingöngu notað. En þegar lesturinn hafði verið stilltur rétt gekk allt að óskum. Braillex-tækið skipti ekki á milli lína þannig að sum orð hófust í lok 40 stafa línu og framhald textans birtist í næstu leslínu. Að lýsingum umboðsmannsins að dæma hefur verið komist fyrir þennan ágalla í Vario-tækjunum og væntanlega ráða nýjar útgáfur annarra blindraletursskjáa betur við þetta.

4. Gerð var tilraun með Ideal Group Reader og Amazon Kindle lesforritin. Hægt var að nota færsluhnappana á Braillex til að ferðast um textann, en textinn kom ekki fram á blindraletri í Ideal Group Reader, einungis aðgerðahnappar sem eru í forritinu. Í Kindle-forritinu var hægt að lesa eina blaðsíðu í senn með blindraletri með því að strjúka tveimur fingrum yfir skjáinn til vinstri og snerta síðan skjáinn. Þá hófst lestur talgervilsins, en um leið var hægt að lesa textann með blindraletri. Eitthvað virtist einatt trufla lesturinn svo að byrja varð að nýju.

Við fyrstu sýn virðist aðgengishluti þessara forita fyrst og fremst miðast við tal. Aðgengi í Apple er sagt vera mun betra fyrir Kindle-bækur, en Amazon hefur ekki sinnt óskum bandarísku blindrasamtakanna um úrbætur í Android-umhverfinu. Svo virðist sem aðgengið sé engu skárra í lestækjum Amazons.

5. Þegar senda skyldi póst eða smáskilaboð bað síminn um staðfestingu þess að nota ætti blindraleturslyklaborð í stað Samsung-lyklaborðs. Eftir það gekk ágætlega að senda smáskilaboð.

6. Í fljótu bragði virtist sem erfiðlega gengi að stjórna bendlinum. En hægt ætti að vera að nota hnappana fyrir ofan lyklaborðið til að stýra honum og ritstýra texta eftir þörfum.

7. Þegar Brailleback forritið er ræst er sérstaklega tekið fram að unnt sé að hala niður forritum til að auðvelda aðgengi að vefnum o.fl. Ekki fundust slík forrit við fyrstu leit. Sérstakt svæði er fyrir forritara í Brailleback eins og í Talkback og má vera að þar liggi hundurinn grafinn.

Nú er ekki kunnugt hvernig aðgengi er að blindraleturshluta Apple-umhverfisins að öðru leyti en því að Bandarísku blindrasamtökin hrósa því í tímariti sínu. Apple styður ekki íslenskt blindraletur sem er ærinn ókostur.

Ærin ástæða er til þess að Íslendingar beiti sér fyrir því á vettvangi alþjóðlegra samtaka að farið verði í saumana á aðgengi að blindraletri í Android- og Apple-umhverfi. Um leið þarf að herja á íslensk stjórnvöld um að beita sér í þeirri viðleitni að fá Apple til að vinna að lausnum fyrir íslenskt viðmót.
Fyrir nokkru var talið að Apple hygðist ráðast í að gera íslenskt umhverfi aðgengilegt og herma fregnir að þýðingar tölvuviðmótsins væru komnar verulega á veg. Olli þessu fyrst og fremst minnkandi sala iPad og iPhone hérlendis. En um leið og iPhone 6 kom á markaðinn hækkaði heldur hagur strympu og salan tók kipp. Um svipað leyti endurnýjaði Utanríkisráðuneytið tölvuforða sinn og jafnvel fleiri ráðuneyti. Keyptar voru Apple-tölvur.
Þannig vinna stjórnvöld í raun gegn því að Apple-umhverfið verði þýtt á íslensku.


Hvað ber að hafa í huga við kaup á tækjum

Svokölluð snjalltæki - spjaldtölvur og símar - fara nú sigurför um allan heim. Ýmislegt hefur verið gert til að aðlaga þau þörfum blindra og sjónskertra auk annarra hópa fatlaðs fólks.
Apple-fyrirtækið reið á vaðið með iPhone og iPad og er nú mikill hluti hugbúnaðarins, sem fylgir tækjunum, aðgengilegur með svokölluðu Voiceover, en það er tölvutal á ýmsum tungumálum. Íslenska er þar ekki á meðal.
Android-símar eins og Samsung, Nexus o.fl. ásamt spjaldtölvum, nota svokallað Talkback til þess að gera tækin aðgengileg sjónskertu og blindu fólki. Þá er hægt að stækka letur bæði á Apple- og Android-tækjum. Ýmsir talgervlar eru í boði fyrir íslensku, Dóra, sem er mannsrödd og Espeak, sem er rafrænn talgervill. Af Android-tækjum eru Samsung-símar og spjaldtölvur einna vinsælust á meðal blindra hér á landi, enda hefur Samsung ákveðið að fylgja ákveðinni aðgengisstefnu. Hún felur í sér að öll tæki, sem fyrirtækið framleiðir, eiga að vera aðgengileg öllum hópum fatlaðra.

Hvað á að hafa í huga?
Áður en snjalltæki annað en Apple er keypt, sem er ætlað blindum eða sjónskertum einstaklingi, ber að ganga úr skugga um að það nýtist með Talkback og talgervli sem talar íslensku. Kaupið aldrei tæki handa blindum eða sjónskertum einstaklingi án þess að ganga úr skugga um þetta áður. Ef vafi leikur á aðgengi leitið þá ráða hjá ráðgjafa, t.d. hjá Þekkingar- og þjónustumiðstöð blindra, sjónskertra og fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
Munið að viðmótið á Androidtækjum er hægt að stilla á íslensku, en íslenska er ekki í boði á Apple-tækjum.
Þó er ekki algilt að allur hugbúnaður Android-tækja hafi verið þýddur, enda eru framleiðendur misjafnir og fjölmargir.
Nokkur fjöldi forrita er nú fyrir hendi á íslensku og verður sérstaklega fjallað um þau á þessu bloggi.

Arnþór Helgason


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband