Færsluflokkur: Snjalltæki - farsímar og spjaldtölvur

Leiðsagnarforritið Here

Smáforritið Here er leiðsagnarforrit frá Nokia. Það er einkum ætlað til að leiðbeina fólki á milli staða þegar farið er akandi. Einnig er í því gönguleiðsögn. Forritið fæst ókeypis í Playstore. Uppsetningin er ekki mjög flókin, en byrja verður á að stofna svokallaðan notandareikning hjá Nokia. Leiðbeiningarnar eru fremur vel samdar.

Þegar leitað er að stað birtir forritið nokkrar leiðir. Sú neðsta á skjánum er gönguleiðsögn, enda er tíminn, sem gefinn er upp, miðaður við að fólk fari gangandi á milli staða. Hægt er að velja um fjölmörg tungumál, þar á meðal íslensku. Íslendkan er ekki í gönguleiðsögninni.

Forritið fylgir akstursleiðum og tilkynnir þegar 450 metrar eru að næstu beygju. Eftir það tilkynnir forritið þegar 250 metrar eru eftir, 80 metrar og segir síðan mönnum að beygja þegar 15-20 eru eftir að næstu gatnamótum.

Nokkuð misjafnt er hvort forritið tilkynni hvort áfangastað sé náð. Yfirleitt greinir það frá því að áfangastaður sé 40 metra framundan.

Forritið tilkynnir minnstu sveigjur á leiðinni og þurfa menn að taka mið af því. Ekki er víst að fólk verði vart við smásveigjurnar þegar það er á gangi.

Þeir sem eru kunnugir leiðum sem oft eru farnar víkja einatt frá uppgefinni leið. Forritið greinir þá ekki eftir hvaða götum er gengið, en gerir viðvart þegar fólk nálgast gatnamót þar sem hægt er að hefjast handa við að hlíta gönguleiðsögninni. Ef menn eru ekki vissir um hvar þeir eru staddir dugar að snerta símaskjáinn og les það þá nafn götunnar og stefnu.

 

Arnþór Helgason


Leiðsagnarforritið Walky Talky

Walky Talky er leiðsagnarforrit sérstaklega sniðið að þörfum blindra og sjónskertra. Framleiðandi þess er Eyesfree sem er aðgengisverkefni á vegum Google. Forritið fæst ókeypis í Playstore og er auðvelt að setja það upp.

Til þess að forritið virki verður að setja upp Google Mapps. Það fæst ókeypis í Playstore.

Þegar uppsetningu Google Maps er lokið birtist það í forritasafni símans undir heitinu Kort.

Áður en hafist er handa við að nota Walky Talky er kortið opnað. Síðan er stutt á heimahnappinn neðst fyrir miðju á skjá símans. Eftir það er Walky Talky ræst.

Rétt er að styðja á aðgerðahnappinn neðst til vinstri á skjá símans og haka við að forritið lesi upp, að áttaviti sé tengdur o.s.frv. Hægt er að aftengja áttavitann þannig að hann láti ekki í sér heyra þegar leiðsögnin er notuð. Hins vegar getur verið hagkvæmt að nota hann ef mönnum er villugjarnt.

 

HVERNIG VINNUR WALKY TALKY?

Þegar lokið hefur verið við að stilla það sem menn vilja helst er stutt á hop-hnappinn neðst til hægri á skjánum til að komast út úr valmyndinni. Birtist þá lyklaborð símans auk valmyndahnappanna Recent destinations (síðustu áfangastaðir), Favorites (eftirlæti) og Contacts (tengiliðir).

Næst er að leita að stað. Ef Google-kortið hefur verið virkjað finnur Walky Talky yfirleitt það heimilisfang sem leitað er að. Birtist þá nýr skjár þar sem nafn staðarins kemur fram og vegalengd. Þar stendur yfirleitt ofar á miðjum skjá Gervihnöttur, hljóðlaust og ef til vill fleira. Nauðsynlegt er að tryggja að ekki sé hakað við hljóðlaust.

Síðan er stutt á hnapp neðarlega til vinstri á skjánum þar sem fram kemur nafn áfangastaðar og vegalengd þangað. Þá á leiðsögnin að hefjast. Reyndar þarf stundum að styðja á hnappinn "Hefja leiðarlýsingu" sem er hægra megin á skjánum.

Þá birtist ítarleg lýsing á leiðinni. Ef allt er með felldu á síminn að lesa á íslensku leiðarlýsinguna. Ef áttavitinn er látinn tala um leið er stundum hætt við að lýsingin fari forgörðum, þ.e. að tuðið í áttavitanum trufli leiðarlýsinguna.

 

TAKIÐ EFTIR!

Svo virðist sem einhverjir hnökrar séu í nýjustu uppfærslu Googlemaps að því leyti að forritið og annar hugbúnaður sem tengist því, t.d. Walky Talky leiðsagnaforritið, les ekki upplýsingar á íslensku og að sögn eins notanda, Ágústu Eirar Guðnýjardóttur, verður að stilla farsíman alfarið á enskt tal. Hvað þá um innsláttinn og lyklaborðið?
Það er einföld lausn til á þessum vanda sem skerðir lítið gæði GoogleMaps en eykur stórlega notagildi WalkyTalky leiðsöguforritsins.
Með því að fara í stillingar og forritastjórnun er hægt að taka út nýjustu útgáfu Googlemaps sem nefnist kort. Þá verður eftir upprunaleg útgáfa Googlemaps sem fyrst var sett upp í símanum. Walky Talky les þá leiðbeiningar sem aldrei fyrr en valmyndin verður á ensku og er mun einfaldari en sú sem vinnur með nýju útgáfunni.
Með þessu móti geta menn notað bæði Here og Walky Talky. Þá er Here stillt "off line" og halað niður íslandskorti í staðinn. Þá nýtir Here eingöngu GPS en ekki þráðlaust innra net.
Ef menn kjósa hinn kostinn að hafa Here sítengt skilar það einnig prýðilegum árangri. Leitin verður þá skilvirkari.
 

Arnþór Helgason


Hvað ber að hafa í huga við kaup á tækjum

Svokölluð snjalltæki - spjaldtölvur og símar - fara nú sigurför um allan heim. Ýmislegt hefur verið gert til að aðlaga þau þörfum blindra og sjónskertra auk annarra hópa fatlaðs fólks.
Apple-fyrirtækið reið á vaðið með iPhone og iPad og er nú mikill hluti hugbúnaðarins, sem fylgir tækjunum, aðgengilegur með svokölluðu Voiceover, en það er tölvutal á ýmsum tungumálum. Íslenska er þar ekki á meðal.
Android-símar eins og Samsung, Nexus o.fl. ásamt spjaldtölvum, nota svokallað Talkback til þess að gera tækin aðgengileg sjónskertu og blindu fólki. Þá er hægt að stækka letur bæði á Apple- og Android-tækjum. Ýmsir talgervlar eru í boði fyrir íslensku, Dóra, sem er mannsrödd og Espeak, sem er rafrænn talgervill. Af Android-tækjum eru Samsung-símar og spjaldtölvur einna vinsælust á meðal blindra hér á landi, enda hefur Samsung ákveðið að fylgja ákveðinni aðgengisstefnu. Hún felur í sér að öll tæki, sem fyrirtækið framleiðir, eiga að vera aðgengileg öllum hópum fatlaðra.

Hvað á að hafa í huga?
Áður en snjalltæki annað en Apple er keypt, sem er ætlað blindum eða sjónskertum einstaklingi, ber að ganga úr skugga um að það nýtist með Talkback og talgervli sem talar íslensku. Kaupið aldrei tæki handa blindum eða sjónskertum einstaklingi án þess að ganga úr skugga um þetta áður. Ef vafi leikur á aðgengi leitið þá ráða hjá ráðgjafa, t.d. hjá Þekkingar- og þjónustumiðstöð blindra, sjónskertra og fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
Munið að viðmótið á Androidtækjum er hægt að stilla á íslensku, en íslenska er ekki í boði á Apple-tækjum.
Þó er ekki algilt að allur hugbúnaður Android-tækja hafi verið þýddur, enda eru framleiðendur misjafnir og fjölmargir.
Nokkur fjöldi forrita er nú fyrir hendi á íslensku og verður sérstaklega fjallað um þau á þessu bloggi.

Arnþór Helgason


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband