Hvernig á að hringja í fyrirtæki sem nota innanhúsnúmer?

Ýmsir hafa lent í vandræðum þegar þeir ætla að hringja úr Android-snjallsímum í fyrirtæki eða stofnanir sem nota innanhúsnúmer í stað þess að gefa samband við skiptiborð.

Nýlega upplýsti Ágústa Eir Guðnýjardóttir hvernig auðveldast sé að fara að og er eftirfarandi lýsing prjónuð við upplýsingar frá henni.

 

Auðveldast er að nota heyrnartól þegar hringt er.

Þá er valinn hnappastikinn og númerið slegið inn, ef það er ekki í símaskránni þinni.

 

Um leið og svarað er getur sá sem hringir valið "Takkaborð" með því að styðja á þann valhnapp.

Síðan er stutt á þá tölu sem beðið er um. Stundum er beðið um að stutt sé á stjörnu eða ferning á eftir. Ferningurinn er til hægri við 0-ið og stjarnan til vinstri.

Vilji menn athuga bankareikning sinn með þessu móti er farið eins að. Gætið þess vel að sú tala sem þarf að slá tvisvar, eins og t.d. 00 í upphafi bankareikningsnúmers heyrist í hvert skipti sem hún er snert. Þá er ágætt að færa fingurinn t.d. upp á 8 og síðan niður á 0 og þegar talan hefur heyrst er óhætt að sleppa.

Athugið að ördaufur skjálfti fer um símann þegar fingri hefur verið ýtt af tölunni.

Þegar símtali lýkur geta menn stutt á hnappinn "Lagt á" eða slitið sambandið með hefðbundnum hætti.

 

Eindregið er mælt með þessari aðferð. Önnur aðferð er að vísu til.

 

Hún er sú að skrá símanúmer viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar í símaskrá notandans Segjum að notandi eigi brýnt erindi við Morgunblaðið og tali iðulega við sama starfsmanninn.

Þá er númer Morgunblaðsins sett inn í símann, þar á eftir ,, (tvær kommur) og innanhúsnúmerið. Þá gæti þetta litið þannig út:

5691100,,999

 


Nýtt blindraleturstæki kynnt - aðgengi að Kindle

Föstudaginn 17. júlí var haldinn kynningarfundur í fundarherbergi Blindrafélagsins. David Bradburn, sem vinnur fyrir umboðsmenn Baum-fyrirtækisins í Bandaríkjunum, sýndi þar blindraleturstæki af tegundinni Varioultra. Um er að ræða samskipta- og minnistæki með 20 eða 40 stafa blindraleturslínu.
Tækið er fremur létt og ótrúlega lítið, einkum minna tækið. Lyklaborð þess lofar góðu, en það er 8 punkta, en hins vegar er staðsetning stjórnhnappa ekki að öllu leyti ákjósanleg. Í tækinu eru ritlar sem skila skjölum á margs konar sniði svo sem doc, docx, rtf og brf, sem er í raun textasnið einkum ætlað fyrir hreint blindraletur. Geymsluminni þess er 32 gb sem dugar fyrir heilt bókasafn blindraletursbóka. Þá eru í tækinu dagbók, töflureiknir, reiknivél o.fl.
Fyrirtækin Baum, F.H. Papenmeier og Freedom Scientific eru á meðal helstu framleiðenda blindraleturstækja um þessar mundir. Áherslur þeirra eru um margt líkar en hvert fyrirtæki hefur sína sérstöðu. Öll framleiða þau tæki sem hægt er að tengja svokölluðum snjalltækjum eins og farsímum. Varioultra og Braillex Live eru dæmi um slík tæki. Þá hefur Braillex Trio frá Papenmeier einnig tengilmöguleika við Android- og Apple-snjallsíma, en það er mun stærra en áður nefnd tæki og hugbúnaðurinn ekki algerlega sambærilegur.
Í framhaldi fundarins var ráðist í að kanna aðgengi að ýmsum forritum í android-umhverfinu. Notað var Braillex Trio frá FHP, en ætla má að niðurstöðurnar yrðu hliðstæðar með tækjum frá öðrum framleiðendum. Niðurstöðurnar urðu eftirfarandi:

1. Eftir að kveikt hafði verið á Brailleback forritinu sem er neðan við Talkback í aðgengisvalmyndinni og stýrir bluetooth-samskiptum við snjallsíma eða spjaldtölvur gekk vel að para saman Braillex Trio og Samsung SIII snjallsíma. Þessi aðgerð hafði verið framkvæmd áður og tækið einnig tengt iPhone-síma.

2. Mjög auðvelt er að nota hnappana fyrir ofan blindraleturslyklaborðið til að ræsa forrit sem birtast á skjá snjallsímans og upplýsingar birtast jafnóðum um forritin þegar færsluhnappur Braillex-tækisins er notaður.

3. Nokkrum erfiðleikum var bundið að lesa tölvupóst og virtist vera um svipuð vandamál að ræða þegar Talkback er eingöngu notað. En þegar lesturinn hafði verið stilltur rétt gekk allt að óskum. Braillex-tækið skipti ekki á milli lína þannig að sum orð hófust í lok 40 stafa línu og framhald textans birtist í næstu leslínu. Að lýsingum umboðsmannsins að dæma hefur verið komist fyrir þennan ágalla í Vario-tækjunum og væntanlega ráða nýjar útgáfur annarra blindraletursskjáa betur við þetta.

4. Gerð var tilraun með Ideal Group Reader og Amazon Kindle lesforritin. Hægt var að nota færsluhnappana á Braillex til að ferðast um textann, en textinn kom ekki fram á blindraletri í Ideal Group Reader, einungis aðgerðahnappar sem eru í forritinu. Í Kindle-forritinu var hægt að lesa eina blaðsíðu í senn með blindraletri með því að strjúka tveimur fingrum yfir skjáinn til vinstri og snerta síðan skjáinn. Þá hófst lestur talgervilsins, en um leið var hægt að lesa textann með blindraletri. Eitthvað virtist einatt trufla lesturinn svo að byrja varð að nýju.

Við fyrstu sýn virðist aðgengishluti þessara forita fyrst og fremst miðast við tal. Aðgengi í Apple er sagt vera mun betra fyrir Kindle-bækur, en Amazon hefur ekki sinnt óskum bandarísku blindrasamtakanna um úrbætur í Android-umhverfinu. Svo virðist sem aðgengið sé engu skárra í lestækjum Amazons.

5. Þegar senda skyldi póst eða smáskilaboð bað síminn um staðfestingu þess að nota ætti blindraleturslyklaborð í stað Samsung-lyklaborðs. Eftir það gekk ágætlega að senda smáskilaboð.

6. Í fljótu bragði virtist sem erfiðlega gengi að stjórna bendlinum. En hægt ætti að vera að nota hnappana fyrir ofan lyklaborðið til að stýra honum og ritstýra texta eftir þörfum.

7. Þegar Brailleback forritið er ræst er sérstaklega tekið fram að unnt sé að hala niður forritum til að auðvelda aðgengi að vefnum o.fl. Ekki fundust slík forrit við fyrstu leit. Sérstakt svæði er fyrir forritara í Brailleback eins og í Talkback og má vera að þar liggi hundurinn grafinn.

Nú er ekki kunnugt hvernig aðgengi er að blindraleturshluta Apple-umhverfisins að öðru leyti en því að Bandarísku blindrasamtökin hrósa því í tímariti sínu. Apple styður ekki íslenskt blindraletur sem er ærinn ókostur.

Ærin ástæða er til þess að Íslendingar beiti sér fyrir því á vettvangi alþjóðlegra samtaka að farið verði í saumana á aðgengi að blindraletri í Android- og Apple-umhverfi. Um leið þarf að herja á íslensk stjórnvöld um að beita sér í þeirri viðleitni að fá Apple til að vinna að lausnum fyrir íslenskt viðmót.
Fyrir nokkru var talið að Apple hygðist ráðast í að gera íslenskt umhverfi aðgengilegt og herma fregnir að þýðingar tölvuviðmótsins væru komnar verulega á veg. Olli þessu fyrst og fremst minnkandi sala iPad og iPhone hérlendis. En um leið og iPhone 6 kom á markaðinn hækkaði heldur hagur strympu og salan tók kipp. Um svipað leyti endurnýjaði Utanríkisráðuneytið tölvuforða sinn og jafnvel fleiri ráðuneyti. Keyptar voru Apple-tölvur.
Þannig vinna stjórnvöld í raun gegn því að Apple-umhverfið verði þýtt á íslensku.


Snjallsímar og bankaforritin

Snjallsímar eru til margra hluta nýtir. Þeir sem fara að nota þessi tæki komast fljótlega að því að notagildi þeirra er margþætt.
Flestir landsmenn hafa aðgang að tölvum og annast bankaviðskipti sín að mestu leyti sjálfir. Bankarnir hafa auglýst smáforrit sem gera fólki kleift að sinna ýmsum viðskiptum með snjallsímanum. Ekki hafa borist spurnir um að blindir notendur hafi átt í teljandi vandræðum með að nýta sér slík forrit enda hefur verið brugðist við athugasemdum notenda. Það auðveldar fólki að nota forritin ef hægt er að fá aðstoð sjáandi einstaklinga við að setja forritin upp og kynna sér skjáinn.
Þegar snjalltæki eins og spjaldtölva eða sími eru tengd netbanka þarf að fara eins að og þegar aðgangur að reikningi er settur upp í fyrsta sinn. Gefa þarf upp notandanafn og lykilorð auk símanúmers. Eftir að það hefur verið gert er björninn að mestu leyti unninn.

Það sem hér fer á eftir miðast við Íslandsbankaappið. Gera má ráð fyrir að forrit annarra banka séu svipuð.
Í hvert skipti sem einstaklingur skoðar reikninga sína í netbanka þarf að gefa upp öryggistölu. Takið eftir að öryggistalan er ekki hin sama og Pinn-númer rafrænna skilríkja nema notandi hafi ákveðið annað.
Þegar öryggisnúmerið hefur verið skráð staðfestir bankinn að það hafi borist og opnast þá valmynd með öllum reikningum sem eigandi snjalltækisins hefur stofnað. Hægt er að renna fingri eftir skjánum og heyra eða lesa stöðuna. Sé viðkomandi reikningur snertur með því að drepa á hann fingri birtast upplýsingar um færslur.
Sérstakir hnappar eru efst á skjánum til hægri og vinstri, í Íslandsbanka-forritinu eru þeir merktir Todo. Þegar drepið er fingri á annan hvorn hnappinn birtist listi yfir ýmsar aðgerðir, svo sem hraðfærslur. Sé sá möguleiki valinn geta menn valið um 1000, 2.000, 5.000 eða 10.000 kr sem hægt er að millifæra á þekkta viðtakendur. Velja þar sérstaklega þá viðtakendur sem samþykktir eru í snjalltækjum og er best að velja þá áður en hafist er handa við greiðslur.

Þegar viðtakandi hefur verið valinn og upphæð ákveðin er stutt á plús-hnapp sem er hægra megin við stöðluðu upphæðirnar. Þá birtist reitur efst á skjánum með upphæðinni 0 kr. Stutt er á hann. Birtist þá talnaborð fyrir neðan og er upphæðin skráð þar. Þá er stutt á hnappana staðfesta og greiða.

Menn geta óskað eftir afriti og jafnframt látið senda viðtakanda staðfestingu í tölvupósti.

Greiðsla reikninga er mun einfaldari aðgerð og tekur mun skemmri tíma í snjallsíma en með heimilistölvunni.

Ábendingar um hvað eina sem missagt kann að vera í þessum texta eru vel þegnar.

Arnþór Helgason


Leiðsagnarforritið Here

Smáforritið Here er leiðsagnarforrit frá Nokia. Það er einkum ætlað til að leiðbeina fólki á milli staða þegar farið er akandi. Einnig er í því gönguleiðsögn. Forritið fæst ókeypis í Playstore. Uppsetningin er ekki mjög flókin, en byrja verður á að stofna svokallaðan notandareikning hjá Nokia. Leiðbeiningarnar eru fremur vel samdar.

Þegar leitað er að stað birtir forritið nokkrar leiðir. Sú neðsta á skjánum er gönguleiðsögn, enda er tíminn, sem gefinn er upp, miðaður við að fólk fari gangandi á milli staða. Hægt er að velja um fjölmörg tungumál, þar á meðal íslensku. Íslendkan er ekki í gönguleiðsögninni.

Forritið fylgir akstursleiðum og tilkynnir þegar 450 metrar eru að næstu beygju. Eftir það tilkynnir forritið þegar 250 metrar eru eftir, 80 metrar og segir síðan mönnum að beygja þegar 15-20 eru eftir að næstu gatnamótum.

Nokkuð misjafnt er hvort forritið tilkynni hvort áfangastað sé náð. Yfirleitt greinir það frá því að áfangastaður sé 40 metra framundan.

Forritið tilkynnir minnstu sveigjur á leiðinni og þurfa menn að taka mið af því. Ekki er víst að fólk verði vart við smásveigjurnar þegar það er á gangi.

Þeir sem eru kunnugir leiðum sem oft eru farnar víkja einatt frá uppgefinni leið. Forritið greinir þá ekki eftir hvaða götum er gengið, en gerir viðvart þegar fólk nálgast gatnamót þar sem hægt er að hefjast handa við að hlíta gönguleiðsögninni. Ef menn eru ekki vissir um hvar þeir eru staddir dugar að snerta símaskjáinn og les það þá nafn götunnar og stefnu.

 

Arnþór Helgason


Leiðsagnarforritið Walky Talky

Walky Talky er leiðsagnarforrit sérstaklega sniðið að þörfum blindra og sjónskertra. Framleiðandi þess er Eyesfree sem er aðgengisverkefni á vegum Google. Forritið fæst ókeypis í Playstore og er auðvelt að setja það upp.

Til þess að forritið virki verður að setja upp Google Mapps. Það fæst ókeypis í Playstore.

Þegar uppsetningu Google Maps er lokið birtist það í forritasafni símans undir heitinu Kort.

Áður en hafist er handa við að nota Walky Talky er kortið opnað. Síðan er stutt á heimahnappinn neðst fyrir miðju á skjá símans. Eftir það er Walky Talky ræst.

Rétt er að styðja á aðgerðahnappinn neðst til vinstri á skjá símans og haka við að forritið lesi upp, að áttaviti sé tengdur o.s.frv. Hægt er að aftengja áttavitann þannig að hann láti ekki í sér heyra þegar leiðsögnin er notuð. Hins vegar getur verið hagkvæmt að nota hann ef mönnum er villugjarnt.

 

HVERNIG VINNUR WALKY TALKY?

Þegar lokið hefur verið við að stilla það sem menn vilja helst er stutt á hop-hnappinn neðst til hægri á skjánum til að komast út úr valmyndinni. Birtist þá lyklaborð símans auk valmyndahnappanna Recent destinations (síðustu áfangastaðir), Favorites (eftirlæti) og Contacts (tengiliðir).

Næst er að leita að stað. Ef Google-kortið hefur verið virkjað finnur Walky Talky yfirleitt það heimilisfang sem leitað er að. Birtist þá nýr skjár þar sem nafn staðarins kemur fram og vegalengd. Þar stendur yfirleitt ofar á miðjum skjá Gervihnöttur, hljóðlaust og ef til vill fleira. Nauðsynlegt er að tryggja að ekki sé hakað við hljóðlaust.

Síðan er stutt á hnapp neðarlega til vinstri á skjánum þar sem fram kemur nafn áfangastaðar og vegalengd þangað. Þá á leiðsögnin að hefjast. Reyndar þarf stundum að styðja á hnappinn "Hefja leiðarlýsingu" sem er hægra megin á skjánum.

Þá birtist ítarleg lýsing á leiðinni. Ef allt er með felldu á síminn að lesa á íslensku leiðarlýsinguna. Ef áttavitinn er látinn tala um leið er stundum hætt við að lýsingin fari forgörðum, þ.e. að tuðið í áttavitanum trufli leiðarlýsinguna.

 

TAKIÐ EFTIR!

Svo virðist sem einhverjir hnökrar séu í nýjustu uppfærslu Googlemaps að því leyti að forritið og annar hugbúnaður sem tengist því, t.d. Walky Talky leiðsagnaforritið, les ekki upplýsingar á íslensku og að sögn eins notanda, Ágústu Eirar Guðnýjardóttur, verður að stilla farsíman alfarið á enskt tal. Hvað þá um innsláttinn og lyklaborðið?
Það er einföld lausn til á þessum vanda sem skerðir lítið gæði GoogleMaps en eykur stórlega notagildi WalkyTalky leiðsöguforritsins.
Með því að fara í stillingar og forritastjórnun er hægt að taka út nýjustu útgáfu Googlemaps sem nefnist kort. Þá verður eftir upprunaleg útgáfa Googlemaps sem fyrst var sett upp í símanum. Walky Talky les þá leiðbeiningar sem aldrei fyrr en valmyndin verður á ensku og er mun einfaldari en sú sem vinnur með nýju útgáfunni.
Með þessu móti geta menn notað bæði Here og Walky Talky. Þá er Here stillt "off line" og halað niður íslandskorti í staðinn. Þá nýtir Here eingöngu GPS en ekki þráðlaust innra net.
Ef menn kjósa hinn kostinn að hafa Here sítengt skilar það einnig prýðilegum árangri. Leitin verður þá skilvirkari.
 

Arnþór Helgason


Hvað ber að hafa í huga við kaup á tækjum

Svokölluð snjalltæki - spjaldtölvur og símar - fara nú sigurför um allan heim. Ýmislegt hefur verið gert til að aðlaga þau þörfum blindra og sjónskertra auk annarra hópa fatlaðs fólks.
Apple-fyrirtækið reið á vaðið með iPhone og iPad og er nú mikill hluti hugbúnaðarins, sem fylgir tækjunum, aðgengilegur með svokölluðu Voiceover, en það er tölvutal á ýmsum tungumálum. Íslenska er þar ekki á meðal.
Android-símar eins og Samsung, Nexus o.fl. ásamt spjaldtölvum, nota svokallað Talkback til þess að gera tækin aðgengileg sjónskertu og blindu fólki. Þá er hægt að stækka letur bæði á Apple- og Android-tækjum. Ýmsir talgervlar eru í boði fyrir íslensku, Dóra, sem er mannsrödd og Espeak, sem er rafrænn talgervill. Af Android-tækjum eru Samsung-símar og spjaldtölvur einna vinsælust á meðal blindra hér á landi, enda hefur Samsung ákveðið að fylgja ákveðinni aðgengisstefnu. Hún felur í sér að öll tæki, sem fyrirtækið framleiðir, eiga að vera aðgengileg öllum hópum fatlaðra.

Hvað á að hafa í huga?
Áður en snjalltæki annað en Apple er keypt, sem er ætlað blindum eða sjónskertum einstaklingi, ber að ganga úr skugga um að það nýtist með Talkback og talgervli sem talar íslensku. Kaupið aldrei tæki handa blindum eða sjónskertum einstaklingi án þess að ganga úr skugga um þetta áður. Ef vafi leikur á aðgengi leitið þá ráða hjá ráðgjafa, t.d. hjá Þekkingar- og þjónustumiðstöð blindra, sjónskertra og fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.
Munið að viðmótið á Androidtækjum er hægt að stilla á íslensku, en íslenska er ekki í boði á Apple-tækjum.
Þó er ekki algilt að allur hugbúnaður Android-tækja hafi verið þýddur, enda eru framleiðendur misjafnir og fjölmargir.
Nokkur fjöldi forrita er nú fyrir hendi á íslensku og verður sérstaklega fjallað um þau á þessu bloggi.

Arnþór Helgason


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband