Færsluflokkur: Símaforrit - hringingar og SMS

Hvernig á að hringja í fyrirtæki sem nota innanhúsnúmer?

Ýmsir hafa lent í vandræðum þegar þeir ætla að hringja úr Android-snjallsímum í fyrirtæki eða stofnanir sem nota innanhúsnúmer í stað þess að gefa samband við skiptiborð.

Nýlega upplýsti Ágústa Eir Guðnýjardóttir hvernig auðveldast sé að fara að og er eftirfarandi lýsing prjónuð við upplýsingar frá henni.

 

Auðveldast er að nota heyrnartól þegar hringt er.

Þá er valinn hnappastikinn og númerið slegið inn, ef það er ekki í símaskránni þinni.

 

Um leið og svarað er getur sá sem hringir valið "Takkaborð" með því að styðja á þann valhnapp.

Síðan er stutt á þá tölu sem beðið er um. Stundum er beðið um að stutt sé á stjörnu eða ferning á eftir. Ferningurinn er til hægri við 0-ið og stjarnan til vinstri.

Vilji menn athuga bankareikning sinn með þessu móti er farið eins að. Gætið þess vel að sú tala sem þarf að slá tvisvar, eins og t.d. 00 í upphafi bankareikningsnúmers heyrist í hvert skipti sem hún er snert. Þá er ágætt að færa fingurinn t.d. upp á 8 og síðan niður á 0 og þegar talan hefur heyrst er óhætt að sleppa.

Athugið að ördaufur skjálfti fer um símann þegar fingri hefur verið ýtt af tölunni.

Þegar símtali lýkur geta menn stutt á hnappinn "Lagt á" eða slitið sambandið með hefðbundnum hætti.

 

Eindregið er mælt með þessari aðferð. Önnur aðferð er að vísu til.

 

Hún er sú að skrá símanúmer viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar í símaskrá notandans Segjum að notandi eigi brýnt erindi við Morgunblaðið og tali iðulega við sama starfsmanninn.

Þá er númer Morgunblaðsins sett inn í símann, þar á eftir ,, (tvær kommur) og innanhúsnúmerið. Þá gæti þetta litið þannig út:

5691100,,999

 


Nýtt blindraleturstæki kynnt - aðgengi að Kindle

Föstudaginn 17. júlí var haldinn kynningarfundur í fundarherbergi Blindrafélagsins. David Bradburn, sem vinnur fyrir umboðsmenn Baum-fyrirtækisins í Bandaríkjunum, sýndi þar blindraleturstæki af tegundinni Varioultra. Um er að ræða samskipta- og minnistæki með 20 eða 40 stafa blindraleturslínu.
Tækið er fremur létt og ótrúlega lítið, einkum minna tækið. Lyklaborð þess lofar góðu, en það er 8 punkta, en hins vegar er staðsetning stjórnhnappa ekki að öllu leyti ákjósanleg. Í tækinu eru ritlar sem skila skjölum á margs konar sniði svo sem doc, docx, rtf og brf, sem er í raun textasnið einkum ætlað fyrir hreint blindraletur. Geymsluminni þess er 32 gb sem dugar fyrir heilt bókasafn blindraletursbóka. Þá eru í tækinu dagbók, töflureiknir, reiknivél o.fl.
Fyrirtækin Baum, F.H. Papenmeier og Freedom Scientific eru á meðal helstu framleiðenda blindraleturstækja um þessar mundir. Áherslur þeirra eru um margt líkar en hvert fyrirtæki hefur sína sérstöðu. Öll framleiða þau tæki sem hægt er að tengja svokölluðum snjalltækjum eins og farsímum. Varioultra og Braillex Live eru dæmi um slík tæki. Þá hefur Braillex Trio frá Papenmeier einnig tengilmöguleika við Android- og Apple-snjallsíma, en það er mun stærra en áður nefnd tæki og hugbúnaðurinn ekki algerlega sambærilegur.
Í framhaldi fundarins var ráðist í að kanna aðgengi að ýmsum forritum í android-umhverfinu. Notað var Braillex Trio frá FHP, en ætla má að niðurstöðurnar yrðu hliðstæðar með tækjum frá öðrum framleiðendum. Niðurstöðurnar urðu eftirfarandi:

1. Eftir að kveikt hafði verið á Brailleback forritinu sem er neðan við Talkback í aðgengisvalmyndinni og stýrir bluetooth-samskiptum við snjallsíma eða spjaldtölvur gekk vel að para saman Braillex Trio og Samsung SIII snjallsíma. Þessi aðgerð hafði verið framkvæmd áður og tækið einnig tengt iPhone-síma.

2. Mjög auðvelt er að nota hnappana fyrir ofan blindraleturslyklaborðið til að ræsa forrit sem birtast á skjá snjallsímans og upplýsingar birtast jafnóðum um forritin þegar færsluhnappur Braillex-tækisins er notaður.

3. Nokkrum erfiðleikum var bundið að lesa tölvupóst og virtist vera um svipuð vandamál að ræða þegar Talkback er eingöngu notað. En þegar lesturinn hafði verið stilltur rétt gekk allt að óskum. Braillex-tækið skipti ekki á milli lína þannig að sum orð hófust í lok 40 stafa línu og framhald textans birtist í næstu leslínu. Að lýsingum umboðsmannsins að dæma hefur verið komist fyrir þennan ágalla í Vario-tækjunum og væntanlega ráða nýjar útgáfur annarra blindraletursskjáa betur við þetta.

4. Gerð var tilraun með Ideal Group Reader og Amazon Kindle lesforritin. Hægt var að nota færsluhnappana á Braillex til að ferðast um textann, en textinn kom ekki fram á blindraletri í Ideal Group Reader, einungis aðgerðahnappar sem eru í forritinu. Í Kindle-forritinu var hægt að lesa eina blaðsíðu í senn með blindraletri með því að strjúka tveimur fingrum yfir skjáinn til vinstri og snerta síðan skjáinn. Þá hófst lestur talgervilsins, en um leið var hægt að lesa textann með blindraletri. Eitthvað virtist einatt trufla lesturinn svo að byrja varð að nýju.

Við fyrstu sýn virðist aðgengishluti þessara forita fyrst og fremst miðast við tal. Aðgengi í Apple er sagt vera mun betra fyrir Kindle-bækur, en Amazon hefur ekki sinnt óskum bandarísku blindrasamtakanna um úrbætur í Android-umhverfinu. Svo virðist sem aðgengið sé engu skárra í lestækjum Amazons.

5. Þegar senda skyldi póst eða smáskilaboð bað síminn um staðfestingu þess að nota ætti blindraleturslyklaborð í stað Samsung-lyklaborðs. Eftir það gekk ágætlega að senda smáskilaboð.

6. Í fljótu bragði virtist sem erfiðlega gengi að stjórna bendlinum. En hægt ætti að vera að nota hnappana fyrir ofan lyklaborðið til að stýra honum og ritstýra texta eftir þörfum.

7. Þegar Brailleback forritið er ræst er sérstaklega tekið fram að unnt sé að hala niður forritum til að auðvelda aðgengi að vefnum o.fl. Ekki fundust slík forrit við fyrstu leit. Sérstakt svæði er fyrir forritara í Brailleback eins og í Talkback og má vera að þar liggi hundurinn grafinn.

Nú er ekki kunnugt hvernig aðgengi er að blindraleturshluta Apple-umhverfisins að öðru leyti en því að Bandarísku blindrasamtökin hrósa því í tímariti sínu. Apple styður ekki íslenskt blindraletur sem er ærinn ókostur.

Ærin ástæða er til þess að Íslendingar beiti sér fyrir því á vettvangi alþjóðlegra samtaka að farið verði í saumana á aðgengi að blindraletri í Android- og Apple-umhverfi. Um leið þarf að herja á íslensk stjórnvöld um að beita sér í þeirri viðleitni að fá Apple til að vinna að lausnum fyrir íslenskt viðmót.
Fyrir nokkru var talið að Apple hygðist ráðast í að gera íslenskt umhverfi aðgengilegt og herma fregnir að þýðingar tölvuviðmótsins væru komnar verulega á veg. Olli þessu fyrst og fremst minnkandi sala iPad og iPhone hérlendis. En um leið og iPhone 6 kom á markaðinn hækkaði heldur hagur strympu og salan tók kipp. Um svipað leyti endurnýjaði Utanríkisráðuneytið tölvuforða sinn og jafnvel fleiri ráðuneyti. Keyptar voru Apple-tölvur.
Þannig vinna stjórnvöld í raun gegn því að Apple-umhverfið verði þýtt á íslensku.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband