Snjallsímar og bankaforritin

Snjallsímar eru til margra hluta nýtir. Þeir sem fara að nota þessi tæki komast fljótlega að því að notagildi þeirra er margþætt.
Flestir landsmenn hafa aðgang að tölvum og annast bankaviðskipti sín að mestu leyti sjálfir. Bankarnir hafa auglýst smáforrit sem gera fólki kleift að sinna ýmsum viðskiptum með snjallsímanum. Ekki hafa borist spurnir um að blindir notendur hafi átt í teljandi vandræðum með að nýta sér slík forrit enda hefur verið brugðist við athugasemdum notenda. Það auðveldar fólki að nota forritin ef hægt er að fá aðstoð sjáandi einstaklinga við að setja forritin upp og kynna sér skjáinn.
Þegar snjalltæki eins og spjaldtölva eða sími eru tengd netbanka þarf að fara eins að og þegar aðgangur að reikningi er settur upp í fyrsta sinn. Gefa þarf upp notandanafn og lykilorð auk símanúmers. Eftir að það hefur verið gert er björninn að mestu leyti unninn.

Það sem hér fer á eftir miðast við Íslandsbankaappið. Gera má ráð fyrir að forrit annarra banka séu svipuð.
Í hvert skipti sem einstaklingur skoðar reikninga sína í netbanka þarf að gefa upp öryggistölu. Takið eftir að öryggistalan er ekki hin sama og Pinn-númer rafrænna skilríkja nema notandi hafi ákveðið annað.
Þegar öryggisnúmerið hefur verið skráð staðfestir bankinn að það hafi borist og opnast þá valmynd með öllum reikningum sem eigandi snjalltækisins hefur stofnað. Hægt er að renna fingri eftir skjánum og heyra eða lesa stöðuna. Sé viðkomandi reikningur snertur með því að drepa á hann fingri birtast upplýsingar um færslur.
Sérstakir hnappar eru efst á skjánum til hægri og vinstri, í Íslandsbanka-forritinu eru þeir merktir Todo. Þegar drepið er fingri á annan hvorn hnappinn birtist listi yfir ýmsar aðgerðir, svo sem hraðfærslur. Sé sá möguleiki valinn geta menn valið um 1000, 2.000, 5.000 eða 10.000 kr sem hægt er að millifæra á þekkta viðtakendur. Velja þar sérstaklega þá viðtakendur sem samþykktir eru í snjalltækjum og er best að velja þá áður en hafist er handa við greiðslur.

Þegar viðtakandi hefur verið valinn og upphæð ákveðin er stutt á plús-hnapp sem er hægra megin við stöðluðu upphæðirnar. Þá birtist reitur efst á skjánum með upphæðinni 0 kr. Stutt er á hann. Birtist þá talnaborð fyrir neðan og er upphæðin skráð þar. Þá er stutt á hnappana staðfesta og greiða.

Menn geta óskað eftir afriti og jafnframt látið senda viðtakanda staðfestingu í tölvupósti.

Greiðsla reikninga er mun einfaldari aðgerð og tekur mun skemmri tíma í snjallsíma en með heimilistölvunni.

Ábendingar um hvað eina sem missagt kann að vera í þessum texta eru vel þegnar.

Arnþór Helgason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband